3 Mars 2003 12:00
Tryggingamiðstöðin hf, Íslandsbanki, Hópbílar hf og Forvarna- og fræðsludeild lögreglunnar í Reykjavík bjóða eldri borgurum frá félagsmiðstöðvum í Reykjavík, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi í fræðslu- og skemmtiferð á nýju ári.
Ferðirnar verða farnar dagana 10., 12., 13., 17., 18., 19. og 20. mars, en oftar ef þörf er á. Um klukkan 13.00 verður farið með hópbifreiðum frá Hópbílum hf. en þeir hafa unnið ötullega að því að fá styrktaraðila í ferðirnar. Lögreglumenn munu vera með í för frá félagsmiðstöðvum.
Þjóðmenningarhúsið við Hverfisgötu 15 verður heimsótt. Þegar komið verður á staðinn mun starfsmaður sjá um kynningu á sal á þeim þremur sýningum sem skoðaðar verða með leiðsögn. Um er að ræða handritasýningu, landakortasýningu og sýningu í lessal á íslenskum bókverkum, gömlum og nýjum en þar er nú sýning á verkum Gríms Thomsens. Aðgengi er fyrir hjólastóla í Þjóðmenningarhúsinu.
Lögreglan mun leggja áherslu á að ræða um umferðarmál og önnur öryggismál s.s. um notkun endurskinsmerkja, öryggisbelta, öryggispúða og farsíma í umferðinni.
Kaffisamsæti verður að skoðunarferð lokinni. Ferðalok eru áætluð um klukkan 16.00.
Skráning fer fram hjá forstöðumönnum félagsmiðstöðvanna en þeir munu tilkynna þátttöku í ferðirnar til Forvarna- og fræðsludeildar lögreglunnar í Reykjavík fyrir 7. mars n.k.
Ef frekari upplýsinga er þörf hafið þá samband við Öldu Baldursdóttur í síma 569 9276 eða á alda.baldursdottir@lr.is.