15 September 2011 12:00

Því miður vill það stundum brenna við að frágangur á farmi er óviðunandi. Dæmi um það sést á meðfylgjandi mynd sem var tekin á höfuðborgarsvæðinu í vikunni. Eins og sjá má var ekki skjólborð fremst á vagninum og því ekkert sem hindraði framskrið stálbitans. Hér hefði getað farið illa. Flutningavagninn var kyrrsettur.

Vegna þessa er rétt að rifja upp 73. gr. umferðarlaga en þar segir m.a. um hleðslu ökutækja; Farm skal flytja þannig, að eigi hafi í för með sér hættu fyrir menn eða valdi munatjóni. Þess skal ennfremur gætt, að eigi sé hætta á að farmur dragist eftir akbraut eða falli á hana. Í reglugerð um hleðslu, frágang og merkingu farms segir ennfremur í 2. gr.; Farm ökutækis skal skorða tryggilega og festa við ökutækið. Þannig skal frá gengið að farmurinn byrgi ekki útsýni ökumanns eða hætta sé á að hann hreyfist til eða falli af ökutækinu og valdi tjóni hvort heldur sem er í kyrrstöðu eða í akstri, svo sem við snögga hraða- eða stefnubreytingu ökutækis.