11 Júlí 2017 10:46

Það eru víða framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, en í dag er stefnt að því að malbika Kringlumýrarbraut til norðurs og Sæbraut til vesturs frá Katrínartúni að Faxagötu, báðar akreinar og unnið er á einni akrein í einu. Búast má við lítilsháttar umferðartöfum á meðan á framkvæmd stendur. Ef tími vinnst til þá á að byrja malbikun á Kringlumýrarbraut milli Háaleitisbrautar og Miklubrautar til suðurs. Vegfarendur eru beðnir um að virða merkingar og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðin, sem eru þröng og menn og tæki eru við vinnu mjög nálægt akstursbrautum. Með þessari færslu látum við fylgja mynd af Geirsgötu, sem var tekin frá Arnarhóli um hádegisbil í gær, en lokað var fyrir umferð um bæði um Geirsgötu og Kalkofnsveg í nokkra daga vegna framkvæmda og fór sú ráðstöfun í taugarnar á einhverjum. Sem fyrr hvetjum við ökumenn til að sýna þolinmæði og gefa sér nægan tíma til að komast á milli staða enda er ekkert lát á umferðinni, hún eykst bara ef eitthvað er.