5 Desember 2016 20:59

Nokkrir hafa verið yfirheyrðir í þágu rannsóknar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á frelsissviptingu í austurborginni fyrir helgina, en grunur leikur á að karli um þrítugt hafi verið haldið föngnum í íbúð í fjölbýlishúsi. Maðurinn losnaði úr prísundinni þegar honum tókst að komast út á svalir og þaðan yfir í aðra íbúð.

Tveir karlar voru handteknir nærri vettvangi, en þeir reyndust ekki viðriðnir málið og var sleppt fljótlega. Síðar voru húsráðendur umræddrar íbúðar, karl og kona, handteknir en þeim var sömuleiðis sleppt úr haldi lögreglu eftir yfirheyrslur.

Rannsókn málsins miðar vel, en þess má geta að áverkar brotaþola reyndust mun minni en óttast var í fyrstu.