25 Júní 2021 18:41

Í tilefni af fréttaflutningi af niðurstöðu nefndar um eftirlit með lögreglu (NEL) varðandi starfshætti lögreglu vill Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu koma eftirfarandi á framfæri:

Það er grundvallartriði að viðhalda því góða trausti sem lögreglan nýtur. Eftirlit með störfum lögreglu er einn af hornsteinum þess að viðhalda því trausti. Hvað varðar afhendingu gagna til nefndarinnar er rétt að taka fram að tæmandi endurrit af samræðum lögreglumanna á vettvangi fylgdi með til nefndarinnar strax í upphafi. Nefndin hafði þar af leiðandi umrædd samtöl, sem vísað er til í niðurstöðum hennar, undir höndum allan tímann. Rétt er að hluti af upptökum úr búkmyndavélum á vettvangi var án hljóðs. Þegar nefndin gerði athugasemd við það var rétt eintak sent til nefndarinnar. Engin tilraun var gerð til að leyna því sem fram kom á upptökunum.

Hvað varðar niðurstöðu nefndarinnar um að vísbendingar séu um að dagbókarfærsla hafi verið efnislega röng telur embættið mikilvægt að taka fram að fyrstu upplýsingar lögreglu sem fengust á vettvangi voru á þann veg að um einkasamkvæmi væri að ræða og var það því skráð sem slíkt í dagbók lögreglu. Hins vegar leiddi frekari rannsókn málsins í ljós að svo var ekki. Markmið með birtingu upplýsinga úr dagbókarfærslum er að fjalla um verkefni lögreglu eins og þau birtast á hverjum tíma. Eðli máls samkvæmt geta mál skýrst eða tekið aðra stefnu eftir því sem rannsókn miðar áfram.

Hvað varðar niðurstöðu nefndarinnar um að háttsemi tiltekinna starfsmanna embættisins geti talist ámælisverð þá hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tekið það til meðferðar og sett í farveg. Að öðru leyti getur embættið ekki veitt upplýsingar um málefni einstakra starfsmanna.