20 September 2007 12:00

Átta einstaklingar hafa verið handteknir í tengslum við rannsókn lögreglu á fíkniefnamálinu á Fáskrúðsfirði. Fimm voru handteknir hérlendis, tveir í Danmörku og einn í Noregi. Rannsóknin er enn í fullum gangi hér á landi og í framangreindum löndum. Frekari upplýsingar um framvindu málsins verða sendar fjölmiðlum eftir því sem rannsókn málsins vindur fram.

Evrópulögreglan, Europol, hefur sent frá sér fréttatilkynningu vegna haldlagningar fíkniefna á Fáskrúðsfirði, þar sem greint er frá aðkomu Europol að rannsókn málsins. Í henni lýsir Max-Peter Ratzel, forstjóri Europol, yfir ánægju með þessa árangursríku lögregluaðgerð og segir síðan: „Baráttan gegn fíkniefnum er eitt af okkar aðal áhersluatriðum og það er afar jákvætt að sjá eina af smyglleiðunum til Íslands upprætta vegna mikillar og traustrar samvinnu milli lögregluliða innan og utan Evrópusambandsins“. Haft er eftir Stefáni Eiríkssyni, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, í fréttatilkynningunni að aðkoma Europol að rannsókn málsins hafi skipt sköpum fyrir rannsókn málsins og Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri segir að sú fjárfesting að senda sérstakan tengslafulltrúa Íslands til Europol hafi þegar borgað sig.

Fram kemur að rannsóknin hafi verið leidd af fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og hafi staðið yfir í marga mánuði og teygt anga sína til fimm landa auk Íslands og að henni hafa komið lögregluyfirvöld í Danmörku, Færeyjum, Þýskalandi, Hollandi og Noregi með einum eða öðrum hætti. Þá hafa innlendar löggæslustofnanir, svo sem Landhelgisgæslan og embætti ríkislögreglustjóra haft veigamikil hlutverk í rannsókn málsins.

Fréttatilkynning Europol