23 Nóvember 2004 12:00

Neyðarlínu barst tilkynning kl. 21:41 í gærkvöldi um að eldur væri laus á athafnasvæði Hringrásar við Klettagarða 9.  Allt tiltækt lið lögreglu og slökkviliðs fór á vettvang, en fljótlega varð ljóst að um mjög mikinn eld væri að ræða.  Sökum þess hve um mikinn bruna var að ræða gekk slökkvistarf  hægt í fyrstu.  

Lögreglan hafði mikinn viðbúnað vegna brunans og var sl. nótt með tvöfalda vakt við störf.  Í morgun bættust einnig við lögreglumenn úr rannsóknardeildum, til viðbótar við lögreglumenn úr almennri deild, til að sinna lokunar- og gæslustörfum sem og að sinna hefðbundnum útköllum og verkefnum.  Liðsafli frá björgunarsveitum var kallaður út til aðstoðar lögreglu við gæslu- og rýmingarstörf, alls 86 björgunarsveitarmenn.

Strax voru gerðar ráðstafanir varðandi lokanir í nágrenni við brunastað.  Mjög mikinn reyk lagði frá brunanum yfir íbúðarbyggð á Kleppsvegi og í Laugarneshverfi og var ákvörðun tekin um að rýma heimili á því svæði, ekki síst í ljósi þess að grunur lék á að reykurinn gæti verið eitraður.  Var tilkynningum komið til íbúa í gegnum fjölmiðla, en einnig kom lögregla skilboðum til íbúa með gjallarhornum.

Rauði kross Íslands setti að beiðni lögreglu upp fjöldahjálparstöð í Langholtsskóla og þangað gátu íbúar leitað sem ekki fengu inni hjá vinum og ættingjum.  Fjöldi strætisvagna var fenginn til að flytja fólk frá rýmingarsvæðinu að Langholtsskóla. 

Alls leituðu um 200 manns í fjöldahjálparstöðina í Langholtsskóla, og þáðu þar af 83 gistingu á vegum Rauða krossins.  Talið er að um 600 íbúar hafi þurft að yfirgefa heimili sín vegna brunans.     

Tveir lögreglumenn þurftu að leita til slysadeildar vegna reykeitrunar í nótt og lögreglu er kunnugt um að 2-3 almennir borgarar hafi leitað þangað af sömu ástæðu.

Vakin er athygli á fréttatilkynningu frá Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur þar sem varað er við hættulegum reykefnum sem kunna að hafa myndast við brunann.

Tæknideild embættisins mun hefja rannsókn á upptökum brunans  þegar ráðrúm gefst til á brunastað.

Fhl.

Karl Steinar Valsson

aðstoðaryfirlögregluþjónn