17 September 2009 12:00

Allnokkrir ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur í umdæminu í gær en í grófustu brotunum var ekið á 40 km hraða umfram leyfðan hámarkshraða. Sömuleiðis voru skráningarnúmer fjarlægð af ökutækjum sem uppfylltu ekki ákvæði um skoðun eða voru ótryggð en lögreglan hvetur ökumenn til að hafa þessa hluti í lagi. 

Karl um fimmtugt var stöðvaður á Laugavegi í gærmorgun fyrir þeir sakir að aka gegn rauðu ljósi. Við nánari athugun kom einnig í ljós að maðurinn var próflaus. Í gærkvöld féll kona á þrítugsaldri af bifhjóli í Kópavogi en meiðsli hennar voru talin minniháttar. Og í nótt stöðvaði lögreglan för tveggja ökumanna í borginni. Annar var stöðvaður í Vonarstræti en sá, 18 ára piltur, hafði þegar verið sviptur ökuleyfi. Pilturinn reyndi ennfremur að villa á sér heimildir með því að gefa upp ranga kennitölu. Hinn ökumaðurinn, einnig 18 ára piltur, var tekinn á Kringlumýrarbraut en í bíl hans fundust fíkniefni.

Af öðrum málum þar sem ökutæki komu við sögu má nefna að síðdegis í gær var tveimur bílum stolið í borginni, öðrum í Háaleitishverfi en hinum í Breiðholti. Annar bíllinn er kominn í leitirnar en hinn er ennþá ófundinn.