10 Nóvember 2009 12:00

Sex ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Fimm voru stöðvaðir í Reykjavík og einn í Hafnarfirði. Þetta voru fjórir karlar á aldrinum 16-26 ára og tvær konur, 20 og 26 ára. Einn þessara ökumanna hafði ennfremur þegar verið sviptur ökuleyfi og tveir höfðu aldrei öðlast ökuréttindi. Á sama tímabili stöðvaði lögreglan för þriggja ökumanna sem voru undir áhrifum fíkniefna. Tveir voru teknir í Reykjavík og einn í Kópavogi en þetta voru tveir karlar, 17 og 23 ára, og ein kona, 35 ára. Einn þessara ökumanna hafði aldrei öðlast ökuréttindi. Til viðbótar stöðvaði lögreglan för ökumanns í Reykjavík en sá, kona á sextugsaldri, var undir áhrifum lyfja og alls ófær um að stjórna ökutæki. Að auki var þremur öðrum ökumönnum gert að hætta akstri í Reykjavík um helgina en þeir voru allir próflausir, tveir höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi og einn var í akstursbanni. Þremenningarnir, allt karlar, eru á aldrinum 19-38 ára.

Fimmtán umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina en tvö þeirra má rekja til ölvunar- og fíkniefnaaksturs. Í nær öllum tilfellum voru áverkar minniháttar. Í tveimur tilvikum var um bílveltu að ræða og eignatjón því nokkuð.