9 Október 2006 12:00

Níutíu ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík um helgina. Sextíu og fimm þeirra óku á yfir 100 km hraða. Ökufantarnir voru á ferðinni víða um borgina en sá allra versti var tekinn á Miklubrautinni. Sá er 17 ára en bíll hans mældist á 163 km hraða. Viðkomandi hefur nú í fjórgang verið tekinn fyrir hraðakstur. Í tveimur tilfellum er um ofsaakstur að ræða. Það fyrra var í júnílok en þá var pilturinn tekinn á 144 km/klst.

Þess má geta að ungi ökumaðurinn tjáði lögreglunni að hann hefði ritað nafn sitt við umferðarátakið Nú segjum við stopp! Sú yfirlýsingu felur ma. í sér að virða umferðarlög og að gera allt til að skaða hvorki sjálfa sig né aðra í umferðinni. Vera kann að pilturinn hafi verið búinn að gleyma loforði sínu en hann fær nú tíma til að hugsa ráð sitt. Fyrir brot sitt um helgina á hann yfir höfði sér sviptingu ökuleyfis í þrjá mánuði og 70 þúsund króna sekt.

Fimmtíu og einn árekstur var tilkynntur til lögreglunnar um helgina og í sjö þeirra urðu slys á fólki. Í níu tilfellum stungu ökumenn af vettvangi. Tíu voru teknir fyrir ölvunarakstur og tveir fyrir að aka undir áhrifum lyfja og/eða fíkniefna.

.