21 Nóvember 2006 12:00

Tuttugu og tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík í gær. Óhöppin voru langflest minniháttar og ekki er vitað um slys á fólki. Lítið bar á hraðakstri en þó voru tveir ökumenn stöðvaðir á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi í gærkvöld en þeir skeyttu litlu um aðstæður. Annar var á 114 km hraða en hinn á 130. Þá stöðvaði lögreglan ökumann í úthverfi borgarinnar en sá hafði þegar verið sviptur ökuleyfi. Í gær var jafnframt einn ökumaður tekinn fyrir ölvunarakstur.

Allnokkrir ökumenn voru stöðvaðir fyrir að tala í síma án þess að notast við handfrjálsan búnað og tveir óku gegn rauðu ljósi. Einn ökumaður var stöðvaður fyrir að vanrækja merkjagjöf, þ.e. hann gaf ekki stefnuljós. Þess má geta að öll lögregluliðin Suðvestanlands fylgjast grannt með því þessa dagana að stefnumerkjagjöfin sé í lagi. Þá voru klippt skrásetningarnúmer af átta ökutækjum sem öll voru ótryggð.