6 Desember 2006 12:00

Nítján umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík á síðasta sólarhring, langflest minniháttar. Fjórir ökumenn voru stöðvaðir fyrir ölvunarakstur en einum þeirra, karlmanni á þrítugsaldri, var veitt eftirför í nótt. Sá sinnti ekki fyrirmælum lögreglu og ók m.a. í gegnum almenningsgarð og eftir göngustíg áður en hann stöðvaði bifreiðina. Ökumaðurinn reyndi að forða sér af vettvangi en hann var handtekinn og færður í fangageymslu.

Þá stöðvaði lögreglan för fjögurra ökumanna sem höfðu ekki tilskilin leyfi til aksturs. Tveir þeirra höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi en hinir höfðu aldrei öðlast ökuréttindi. Annar þeirra sem ók sviptur hefur áður verið tekinn fyrir þetta sama brot. Hann reyndist jafnframt vera ölvaður í þetta sinn en umræddur ökumaður er karlmaður á þrítugsaldri.

Nokkrir voru teknir fyrir hraðakstur í gær en í einu grófasta brotinu var ekið á tæplega 130 km hraða í útjaðri borgarinnar þar sem leyfður hámarkshraði er 80 km/klst. Umræddur ökumaður er hálffertugur karlmaður en þetta er nefnt hér því sami maður var tekinn tvisvar fyrir hraðakstur í gær. Hitt brotið átti sér stað liðlega hálftíma fyrr en þá voru það lögreglumenn frá öðru embætti sem stöðvuðu för mannsins.