6 Febrúar 2007 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði tvo ökumenn fyrripartinn í gær sem báðir óku undir áhrifum lyfja. Annar, karlmaður á þrítugsaldri, var tekinn á Vífilsstaðavegi en hinn, 18 ára piltur, var tekinn á Miklubraut. Með honum í bíl voru piltur og tvær stúlkur á svipuðu reki. Þau voru öll handtekin vegna innbrots í Mosfellsbæ sama dag. Síðdegis stöðvaði lögreglan liðlega þrítugan karlmann í Valahjalla en sá var þegar sviptur ökuleyfi.

Sautján ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur. Þar á meðal voru nokkrir sem óku á tvöföldum leyfilegum hámarkshraða í íbúðargötum en þeir voru stöðvaðir í Hamrahlíð, Hraunbæ og Norðurfelli. Fjöldi barna fer yfir þessar götur á hverjum degi og því er þessi hraðakstur mikið áhyggjuefni.

Tuttugu og sex umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á síðasta sólarhring. Þau voru nær öll minniháttar en í einu tilviki ætlaði ökumaður sjálfur að leita sér aðstoðar eftir aftanákeyrslu á Fífuhvammsvegi. Sá ók á kyrrstæðan bíl en eigandi hans hafði skroppið frá til að sækja eldsneyti enda var bíllinn bensínlaus. Báðir bílarnir skemmdust töluvert og voru óökufærir eftir óhappið.

Fimm ökumenn voru teknir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og þá voru skráningarnúmer klippt af fjórum ökutækjum sem voru ýmist ótryggð eða höfðu ekki verið færð til skoðunar. Fjórir ökumenn voru ekki með beltin spennt og allnokkrir höfðu ekki ökuskírteinið meðferðis eða höfðu ekki hirt um að endurnýja það.