6 Júní 2007 12:00
Tveir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í Reykjavík í gærkvöld og nótt. Annar var stöðvaður í austurborginni en hinn í miðborginni en sá var jafnframt eftirlýstur vegna afplánunar vararefsingar. Lögreglan stöðvaði tvo aðra ökumenn í nótt sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi. Annar þeirra var nú tekinn fyrir þetta brot í annað sinn á fáeinum dögum.
Á síðasta sólarhring voru fjórir ökumenn stöðvaðir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og jafnmargir fyrir að tala í síma án þess að notast við handfrjálsan búnað. Þá voru tuttugu og sjö umferðaróhöpp tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á sama tímabili. Í einu tilvikanna leikur grunur á að ökumaður hafi verið undir áhrifum fíkniefna.