12 Júlí 2007 12:00
Tuttugu og sjö ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur á höfuðborgarsvæðinu í gær. Grófasta brotið var framið á Sæbraut en þar mældist bíll á 115 km hraða. Ökumaðurinn, karlmaður á fertugsaldri, verður sviptur ökuleyfi fyrir þetta háttalag sitt. Annars gekk umferðin að mestu leyti vel fyrir sig en sextán umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en það verður að teljast í minna lagi.
Enn eru þó margir trassar á ferðinni en það eru t.d. þeir sem færa ekki ökutæki sín til skoðunar en afskipti voru höfð af nokkrum slíkum ökumönnum í gær. Það er líka trassaskapur að aka enn á nagladekkjum um hásumar. Einn ökumaður var stöðvaður fyrir slíkar sakir í gær en viðkomandi, sem er rúmlega hálfþrítugur karlmaður, bar við vankunnáttu á umferðarlögum. Málsvörn hans kom að litlu gagni og maðurinn fær sína sekt eins og aðrir sem brjóta gegn þessu ákvæði.
Þá stöðvaði lögreglan för þrítugs karlmanns en sá var með sjö farþega í bíl sínum en þó voru aðeins sæti og bílbelti fyrir fjóra farþega í þessu ökutæki. Athæfi sem þetta endurspeglar mikið ábyrgðarleysi og er ekki til eftirbreytni.