28 September 2006 12:00
Sautján ára piltur fór illa að ráði sínu í gærkvöld. Hann var á bíl föður síns og bakkaði honum á kyrrstæðan bíl. Síðarnefnda bílinn varð að fjarlægja af vettvangi vegna skemmda. Áreksturinn var því nokkuð harður en með piltinum í bílnum voru þrjár 15 ára stúlkur. Þær leituðu allar aðstoðar á slysadeild síðar í gærkvöld en ekki er vitað frekar um meiðsli þeirra. Pilturinn fékk ökuréttindi í sumarbyrjun.
Þá stöðvaði lögreglan í Reykjavík för 25 ára karlmanns á Suðurlandsvegi. Sá virtist vera að flýta sér mjög mikið því við framúrakstur ók viðkomandi bíl sínum yfir tvær óbrotnar línur. Aksturslag af þessu tagi er vítavert og á ekki að eiga sér stað. Í tveimur umferðaróhöppum í gær fóru ökumenn af vettvangi án þess að axla ábyrgð. Í öðru tilfellinu voru vitni til staðar og vonandi næst því í tjónvaldinn.
Í nótt voru tveir teknir fyrir ölvunarakstur. Annar í miðborginni en hinn í austurbænum. Báðir ökumennirnir eru um fertugt.