7 Ágúst 2016 09:30

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu á fulltrúa á Ólympíuleikunum í Ríó í Brasilíu, en það er hann Pétur Guðmundsson varðstjóri, sem er mættur á sína þriðju leika. Við erum afar stolt af okkar manni, sem nú er þjálfari kringlukastarans unga, ÍR-ingsins Guðna Vals Guðnasonar. Pétur keppti sjálfur á Ólympíuleikunum í Seoul í Suður-Kóreu 1988 og í Barcelona á Spáni 1992 og hafnaði í 14. sæti í bæði skiptin. Fróðlegt verður að sjá hvort Guðni Valur gerir betur en lærimeistarinn, en Pétur keppti reyndar í annarri grein, eða kúluvarpi. Þar var Pétur lengi í fremstu röð og á enn Íslandsmetið í greininni, eða 21,26 metrar. Gamla myndin af Pétri er einmitt tekin af þessu fræga metkasti hans 1990, en á hinni er hann með Guðna Val í húsakynnum íþrótta- og ólympíusambands Íslands skömmu áður en haldið var á Ólympíuleikana. Pétur hefur þjálfað Guðna Val undanfarin þrjú ár, sem nú fer á stærsta íþróttamót heims. Fyrir Ólympíuleikana dvöldu þeir í nokkra daga við æfingar í Bandaríkjunum, en ættu nú að vera komnir til Ríó. Keppni í kringlukasti hefst föstudaginn 12. ágúst, en þar reyna með sér fremstu 36 kringlukastarar heims. Tólf komast síðan áfram í úrslitakeppnina, sem haldin verður daginn eftir og vonandi verður Guðni Valur í þeim hópi.

Ólympíufarar

Pétur Guðmundsson