19 Febrúar 2004 12:00

Tvö forvarnaverkefni á vegum Forvarna- og fræðsludeildar lögreglunnar í Reykjavík hafa verið valin sem dæmi um fyrirmyndarverkefni í umferðarfræðslu í Evrópu. Verkefnin sem um ræðir eru Rétt með strætó og Lúlli löggubangsi.

Samstarfsverkefni sem miðar að auknu umferðaröryggi (Road Safety Campaign) hefur staðið yfir í Evrópu síðastliðin 4 ár. Landsfélög Rauða krossins í Evrópu hafa staðið að verkefninu sem hefur verið styrkt af Evrópusambandinu. Á alþjóðaheilbrigðisdaginn þann 7. apríl næstkomandi lýkur verkefninu formlega. Þá verður ný heimasíða tekin í notkun www.1-life.info og gefið út rit og geisladiskur með 35 verkefnum á sviði umferðaröryggis og umferðarfræðslu sem þykja skara fram úr (Best Practice Guide). Verkefnin sem valin voru, verða kynnt við þetta tækifæri og fer sú kynning fram í Berlín.

Lúlli löggubangsi heimsækir leikskóla borgarinnar í fylgd lögreglumanns. Saga hans er sögð með það markmiði að kenna börnunum umferðarreglur sem geta stuðlað að auknu öryggi þeirra í umferðinni. Farið er yfir hvernig ganga á yfir götu og bílastæði, hvar má leika sér, endurskinsmerki, öryggisbelti/búnað og hjól og hjálma.

Rétt með strætó er samstarfsverkefni lögreglunnar í Reykjavík og Strætó bs., áður SVR. Börn í 3. bekk grunnskóla eru sótt með strætó og farið með þau á umráðasvæði Strætó við Kirkjusand þar sem Strætó hefur komið upp æfingasvæði. Þar læra börnin að umgangast strætisvagna, fá verklega kennslu í umferðarreglunum, læra að nota gangbrautir, handstýrð umferðarljós og rætt er um notkun á ýmsum öryggisbúnaði sem nauðsynlegur er í umferðinni.