21 Júní 2019 17:30

Eitt og annað er að finna í sögubókum fyrir þá sem eru áhugasamir um sögu lögreglunnar. Í ritinu Lögreglan í Reykjavík, sem kom út á fjórða áratug síðustu aldar, er t.d. fjallað um fyrstu lögregluþjónana í Reykjavík í upphafi 19. aldar. Þeir voru hreint út sagt alveg afleitir, en um þá tvo fyrstu er fjallað stuttlega um í ritinu. Þeir hétu Ole Biörn og Vilhelm Nolte og höfðu verið undirliðsforingjar í danska hernum, en lýsingarnar á þeim eru ekki fagrar. „Nolte varð að vísu ekki mosavaxinn í lögreglustörfunum, því hann lagðist þegar í drykkjuskap, er hann kom hingað, og gerðist hann svo magnaður, að hann var settur frá starfi sínu 1804 og sendur heim til Danmerkur. Ole Biörn var hér alla tíð fram til ársins 1814, og hvarf hann þá líka héðan. Ferill hans hafði sízt verið merkilegri en ferill Noltes, en hinsvegar langvinnari. Hann var mesti drykkjurútur, og kom á fót hér í bænum svo nefndum klúbb, en slíkur félagsskapur var þá mjög tíðkaður um álfuna, og átti að heita að það væri málfundafélög, en fór oft svo að allt lenti í drykkjuskap og spilasukki og eins hér, og var þó annar lögregluþjónn, Kragh, einnig meðstofnandi klúbbsins.“

Kragh þessi var jafnframt skraddari, en fengur þótti af slíkum mönnum. Af Kragh fara þó litlar sögur og af því megi ráða að hann hafi verið nokkuð óaðfinnanlegur, eins og segir í ritinu, þrátt fyrir aðild hans að fyrrnefndum klúbbi. Nolte var hins vegar skóari, eins og þá var títt um danska undirliðsforingja og má ætla að það hafi ráðið því að hann fékk lögreglumannsstarfið í Reykjavík á þessum tíma. „Þegar Nolte varð fyrir valinu, er naumast hægt að segja, að þar hafi legið lögregluleg hugsun til grundvallar, því hann var meðfram og jafnvel fyrst og fremst tekinn vegna skósmíðakunnáttu sinnar, og átti hann að reka það starf samsíða lögreglustörfunum, sem vafalaust ekki hefur verið holt, því framkvæmd beggja gat verið bráðaðkallandi samtímis, og þá óvíst hvort yrði látið lúta í lægra haldi .“