28 Mars 2022 12:39

Þau voru af ýmsum toga verkefnin sem lögreglumenn sinntu á helgarvaktinni, en bæði menn og dýr rötuðu í vandræði og þörfnuðust aðstoðar. Í gærkvöld var tilkynnt um gæs við Hringbraut í Reykjavík, en óttast var að hún hefði orðið fyrir bíl. Haldið var á vettvang, en fuglinn reyndist augljóslega hafa orðið fyrir hnjaski af einhverju tagi. Eftir vangaveltur var afráðið að koma gæsinni aftur „til síns heima“ og hún því færð á Reykjavíkurtjörn. Síðar á vaktinni var svo athugað aftur með „sjúklinginn“ sem hafði þá synt út á tjörnina og náð að koma sér makindalega fyrir þar í eyju. Vonandi er það vísbending um að gæsin nái að braggast vel á nýjan leik. Við látum fylgja með mynd af þessu eftirminnilega verkefni á vaktinni þótt hún sé dálítið óskýr.