11 Nóvember 2011 12:00

Karl á fimmtugsaldri hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 9. desember að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Er það gert á grundvelli almannahagsmuna vegna gruns um aðild hans að innflutningi á verulegu magni af fíkniefnum og sterum. Maðurinn hefur kært úrskurðinn til Hæstaréttar.

Fíkniefnin og sterarnir sem um ræðir fundust við leit lögreglu og tollgæslu í gámi sem kom til landsins í síðasta mánuði. Rannsókn málsins hefur staðið yfir í alllangan tíma og hefur verið unnin í samvinnu við tollgæsluna. Annar maður er í gæsluvarðhaldi til 6. desember vegna sama máls.