6 September 2006 12:00

Sextán ára piltur hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 26. september og gert að sæta geðrannsókn vegna hnífstungumáls aðfaranótt sl. þriðjudags. Piltinum er gefið að sök að hafa stungið 25 ára karlmann í bakið með hnífi en árásin var tilefnislaus.

Kunningsskapur er með geranda og þolanda en atvikið átti sér stað í Laugardal þar sem mennirnir höfðu numið staðar stundarkorn eftir ökuferð. Árásarmaðurinn hvarf strax af vettvangi en sá sem fyrir árásinni varð náði sjálfur að keyra á slysadeild. Meiðsli hans reyndust ekki eins alvarleg og leit út fyrir í fyrstu.

Í kjölfarið var lögreglunni í Reykjavík gert viðvart og hóf hún þegar rannsókn málsins. Árásarmaðurinn var handtekinn skömmu síðar skammt frá heimili sínu. Hann hefur gengist við verknaðinum en ekki er ljóst hvað honum gekk til. Ekki er talið að hann hafi átt neitt sökótt við hinn. Hnífurinn sem ungi pilturinn beitti er í vörslu lögreglunnar. Gæsluvarðhaldsúrskurðurinn hefur verið kærður til Hæstaréttar.