Myndin er sviðsett, en reiðhjólið er það sama og barnið var á.
9 Júlí 2015 16:53
Myndin er sviðsett, en reiðhjólið er það sama og barnið var á.

Myndin er sviðsett, en reiðhjólið er það sama og barnið var á.

Á föstudaginn síðasta var ekið á barn á hjóli við hringtorgið á Fífuhvammsvegi við Salaveg í Kópavogi. Hringtorg eru góð að því leiti að þau draga úr hraða og slys á fólki í bílum sem aka á hvern annan eru ólíkleg. Hlutföllin breytast hinsvegar þegar um er að ræða bíl sem er yfir 1500 kg sem lendir á barni sem er 25 kg.

Hér er það hættulegt að gangbrautin er við hringtorgið. Ökumaður sem kemur að úr gagnstæðri átt á ekki möguleika á að sjá gangandi vegfarenda fyrr en hann er langt kominn í hringtorgið. Á sama tíma er ökumaður sem ekur um hringtorg að fylgjast vel með bílum í kring um sig og það dregur úr athygli á öðru á meðan.

Þetta slys var dæmigert. Sjö ára stelpa á reiðhjóli er að koma að gatnamótunum úr vestri (bleik lína). Ökumaður sem ekur suður (græn lína) sér hana og stoppar til að hleypa henni yfir en á sama tíma þá er ökumaður að aka Fífuhvammsveg í norður (rauð lína) og ekur inn á hringtorgið þar sem hann sér ekki gangbrautina. Ökumaðurinn sá síðan stúlkuna rétt áður en hann ekur á hana.

7 ára barn (bleik lína), bíll sem stöðvar (græn lína) og bíll sem kemur í gagnstæðri átt og ekur á barnið (rauð lína).

7 ára barn (bleik lína), bíll sem stöðvar (græn lína) og bíll sem kemur í gagnstæðri átt og ekur á barnið (rauð lína).

Þetta slys fór sem betur fer vel. Stúlkan slapp mjög vel og er óbrotin þó að eitthvað sé hún meidd. En strax eftir slysið þá var mikið álag á barninu, foreldrum og ökumanninum sem ók á barnið. Enda gat augnabliks gáleysi ökumanns haft veruleg áhrif á líf lítils barns.

Í raun má gagnrýna uppsetningu gangbrauta ofan í hringtorgum því ökumenn sem eru að aka út úr hringtorgi sjá illa gangandi vegfarendur og það er alltaf aukið stress að aka um hringtorg. Enn frekar af því að á hringtorgum sem þessu er hækkun á jarðvegi og tré sem byrgja alveg útsýnið yfir þau.

Þetta er útsýnið sem ökumaðurinn, sem ók norður Fífuhvammsveg, hafði á gangbrautina. Sjá má skilitið til hægri ef vel er gáð.

Þetta er útsýnið sem ökumaðurinn, sem ók norður Fífuhvammsveg, hafði á gangbrautina. Sjá má skilitið til hægri ef vel er gáð.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur verið gert viðvart og hefur sent starfsmann til að skoða aðstæður.

En við minnum alla ökumenn á að fylgjast vel með öllu og líka gangandi vegfarendum. Sérstaklega litla fólkinu. Það vill enginn lenda í því að bera ábyrgð á svona slysi.

Þessi saga er sönn. Hún er birt með leyfi fjölskyldunar og ökumannsins sem ók á barnið.