27 Janúar 2017 11:35

Komið var með þessa aldeilis fínu köku á lögreglustöðina um síðustu helgi, en það voru systurnar Þórgunnur, 3 ára, og Steinunn, 5 ára, sem færðu lögreglumönnum hana að gjöf. Til stóð að borða kökuna í afmælisveislu Þórgunnar þessa sömu helgi, en veislunni varð að fresta vegna veikinda. Þá var skotið á fjölskyldufundi og foreldrarnir komu með þá tillögu að færa lögreglunni kökuna góðu. Þórgunnur samþykkti tillöguna með því skilyrði að hún mætti þá koma með á lögreglustöðina! Foreldrarnir útskýrðu jafnframt fyrir systrunum að lögreglan væri búin að vera dugleg undanfarið, en það væri svo mikið að gera hjá henni við að leita að ungri konu sem væri týnd.

Við þökkum kærlega fyrir kökuna, sem smakkaðist afar vel og var fljót að klárast. Jafnframt sendum við Þórgunni innilegar hamingjuóskir með 3 ára afmælið, en fyrirhugað er að halda afmælisveisluna hennar um helgina.