19 Febrúar 2017 10:30

Því miður hefur borið á því að fólk hér á landi, líkt og annarsstaðar í heiminum, er að lenda í klóm glæpamanna sem eru að ráðast gegn tölvum þeirra. Síðustu ár hefur þróun spilli- og gagnagíslatökuforrita tekið kipp í útbreiðslu og þróun.

Tölvuþrjótar fara margar leiðir til að dreifa slíkum forritum og það þarf því alltaf að vera á varðbergi. Sá flokkur spilliforrita (malware) sem er orðinn hvað alvarlegastur í dag eru gagnagíslaforrit. Það eru þau forrit sem dulkóða allar skrár á þeim tölvum sem þeir komast inn á. Helsta ástæðan fyrir þessari öru þróun er að tölvuþrjótarnir geta grætt peninga á þennan hátt. Þeir krefjast lausnargjalds fyrir að gefa upp lykil til að afkóða allar skrárnar.

Takið ykkur augnablik til að velta fyrir ykkur hvaða skrár eru ykkur óbætanlegar? Ég hugsa að flestir velji myndirnar sínar. Langflestir í dag eru með myndir sínar stafrænar og eiga þar safn sem er um 15 ára gamalt. Ímyndið ykkur að þið missið allt á einu bretti eða eruð undir því kominn að borga tölvuþrjót til að eiga möguleika á að endurheimta myndir ykkar?

Hvað er til ráða?

Uppfærsla á vírusvarnarforritum og slíkt er skynsamleg en langbest er að eiga öryggisafrit af því sem þið megið ekki missa og uppfæra það reglulega. Öryggisafrit eru margs konar og sniðugt að eiga fleiri en einn möguleika. Einn er að geyma myndirnar ykkar í netgeymslu, skýi eða því um líkt. Þá er líka sniðugt að eiga varaafrit á hörðum diski sem að þið geymið annarsstaðar en tölvuna ykkar. Mjög mikilvægt er að hann sé þá ekki tengdur við tölvuna því spilliforrit fara inn á allt sem er tengt við tölvuna.

Hvaða leið sem að þið veljið þá er best að eiga afrit á öruggum stað.

Ekki bíða með það heldur. Þið vitið aldrei hvenær slíkt gæti hent ykkur og þá er það of seint. Slíkur búnaður og þjónusta er heldur ekki það dýr í dag að það sé fyrirstaða. Auk þess getur þetta komið sér mjög vel við önnur slæm atvik eins og þjófnað eða bruna. Þetta á heldur ekki bara við um myndir, þetta á líka við um mikilvæg verkefni. Oftar en einu sinni hafa nemendur lent í því að mikilvæg lokaverkefni hafa glatast með fartölvu.

Góðar venjur til að forðast spilli- og gagnagíslatöku:
• Eigið örugg afrit
• Uppfærið vírusvarnir
• Ekki opna skrýtna pósta
• Ekki opna forrit sem koma allt í einu upp og þið vitið ekki hvað eru
• Verið meðvituð um hvað þið eruð að gera á netinu