30 Desember 2011 12:00
Lögreglu hafa borist upplýsingar um gallaðar skottertur en vegna framleiðslugalla þarf fyrirtækið Bomba.is að innkalla tvær gerðir af skottertum. Terturnar bera nöfnin Kópavogur og Breiðholt en mikilvægt er að þeir sem hafa fengið þessar skottertur skili þeim aftur til fyrirtækisins í Víkurhvarfi 6 í Kópavogi. Varan verður endurgreidd eða önnur sambærileg afhent í staðinn.
Lögreglan vill jafnframt nota þetta tækifæri og minna aftur á að óheimilt er að breyta á nokkurn hátt skoteldi þannig að hann hljóti aðra eiginleika en framleiðandi hans ætlaðist til. Við meðferð og vörslu skotelda skal ítrustu varúðar gætt og ætíð farið eftir skráðum leiðbeiningum. Við brennu og í næsta nágrenni við hana er öll meðferð flugelda og annarra skotelda sem hætta stafar af vegna ferils þeirra eftir tendrun bönnuð. Þar er aðeins leyfilegt að nota stjörnuljós og blys, þó ekki skotblys.
Að síðustu hvetur lögreglan alla til að nota þar til gerð hlífðargleraugu þegar flugeldar eru annars vegar.