26 September 2020 10:15

Hér eru tvær myndir frá gamalli tíð úr safni lögreglunnar, en á annarri má sjá ungan lögreglumann, Rudolf Þór Axelsson, stjórna umferðinni í Lækjargötu í Reykjavík. Rudolf, sem hóf störf árið 1957, var síðar sprengjusérfræðingur á vegum lögreglunnar um árabil og kenndi enn fremur við Lögregluskólann um tíma. Þá kenndi hann einnig meðferð skotvopna og skotfæra um nokkurra ára skeið í Reykjavík og nærliggjandi sveitarfélögum. Á hinni myndinni, sem að öllum líkindum var tekin af bandarískum ljósmyndara, má m.a. sjá nokkra þekkta menn úr íslensku þjóðlífi ásamt erlendum merkismönnum. Í hópi Íslendinganna eru menn sem létu að sér kveða í bæði stjórnmálum og fjölmiðlum og gott ef lögreglustjórinn í Reykjavík er ekki þarna líka. Annars látum við lesendum eftir að þekkja mennina og ætti það að reynast mörgum auðvelt.