17 Október 2020 10:00
„Umferð um mót Hofsvallagötu og Hringbrautar reyndist mjög jöfn, þegar talið var miðvikudaginn 18. ágúst 1965. Meðalumferð inn í gatnamótin var 724 bifreiðir, og mest var umferð milli kl. 18 og 19, eða 1114 bifreiðir. Hlutfall umferðar, þegar hún er mest á klst. og meðalumferðar er 1,54. Alls fóru 13.038 bifreiðir um gatnamótin. Talsvert bar á því, að ekið væri hraðar eftir Hringbraut en leyfilegt er, sem getur leitt til alvarlegra slysa, þar sem útsýni við gatnamótin er mjög takmarkað fyrir þá, sem aka Hofsvallagötu. Mikið skorti á, að bifreiðastjórar virtu stöðvunarskyldu, er þeir óku inn í Hringbraut. Munaði litlu, að tvö stórslys yrðu vegna þess, og var í bæði skiptin um bifreiðir að ræða, sem komu eftir Hofsvallagötu úr norðri.“
Hér er vitnað í ársskýrslu umferðardeildar gatnamálastjóra Reykjavíkur, sem kom út fyrir árið 1965, en talningin, sem stóð yfir í 18 klst., tengdist uppsetningu umferðarljósa í borginni. Á meðfylgjandi mynd má svo sjá röggsaman lögreglumann stjórna umferð á þessum sömu gatnamótum, en það er hann Magnús Einarsson, sem var í lögreglunni um áratugaskeið.