7 Júní 2007 12:00

Það vill stundum brenna við í íbúðabyggð að ráðist er í garðslátt á ókristilegum tíma en það hefur undantekningarlaust þær afleiðingar í för með sér að næturró annarra er rofin. Þannig var það einmitt í nótt þegar nokkrir íbúar í austurborginni gátu ekki fest svefn vegna hávaða frá garðsláttuvél. Lögreglan var kölluð á staðinn og hafði hún afskipti af hinum dugmikla vinnumanni. Sá tók tilmælum lögreglumannanna vel og slökkti samstundis á sláttuvélinni. Manninum var jafnframt bent á að framvegis ætti hann að haga þess konar verkum með meira tilliti til annarra í huga.

Í ljósi ofangreinds máls er rétt að vekja sérstaka athygli á 4. gr. lögreglusamþykktar Reykjavíkurborgar. Í henni segir m.a. að bannað er að hafast nokkuð að, sem veldur ónæði eða raskar næturró manna.