3 September 2006 12:00

Undanfarið hefur talsvert borið á þjófnaði á gaskútum og eru slík mál til rannsóknar hjá lögreglunni í Reykjavík. Nokkrir voru handteknir vegna þessa fyrir helgina en fyrir liggur að einn þeirra tók gaskúta ófrjálsri hendi en hinir eru meintir vitorðsmenn hans. Annar aðili liggur líka sterklega undir grun í þessum gaskútamálum og verður hann færður til yfirheyrslu fljótlega.

Þess má geta að um helgina hefur enginn tilkynnt þjófnað á gaskútum til lögreglunnar í Reykjavík. Vonandi bendir það til þess að hinir óprúttnu aðilar séu hættir þessari iðju. Rétt er líka að geta þess að starfsmenn á viðurkenndum móttökustöðum, þ.e. söluaðilar sem líka greiða fyrir tóma gaskúta, hafa verið mjög á varðbergi síðustu daga.