29 Nóvember 2007 12:00

Það kemur ósjaldan fyrir að fólk kvartar undan hávaða frá nágrönnum en oftar ekki er þá um partístand að ræða. Slíkar tilkynningar um hávaða eru að sjálfsögðu teknar alvarlega enda er bannað að raska næturró manna, líkt og segir  í lögreglusamþykktum. Ekki er þó alltaf gleðskap um að kenna en í nótt var í tvígang hringt í lögreglu og beðið um aðstoð vegna geltandi hunda sem héldu vöku fyrir íbúum. Í fyrra skiptið fóru laganna verðir í Garðabæ og leituðu árangurslaust að hundi í ónefndri götu. Nokkru seinna var haldið í sömu erindagjörðum í Kópavog en þar skilaði leitin sömuleiðis engu. Ekki kom þó til frekari ófriðar vegna hunda í nótt og ekki er annað vitað en íbúar á fyrrnefndum stöðum hafi fengið svefnfrið það sem eftir lifði nætur. Þess má einnig geta að í fyrrinótt var líka óskað eftir aðstoð lögreglu vegna hávaða í húsi í Breiðholti. Þar reyndist vekjaraklukka vera sökudólgurinn. Þegar klukkan glumdi var hún svo hátt stillt að nágrannarnir vöknuðu af værum blundi. Það skal tekið fram að hér var um fjölbýlishús að ræða.