8 Október 2016 10:05

Verkefni lögreglumanna eru af ýmsum toga og sum klárlega hættulegri en önnur. Björgun gæludýra getur fallið undir það, ótrúlegt en satt, en að klifra upp í tré til að bjarga ketti er ekki fyrir hvern sem er og er allt annað en hættulaust eins og dæmin sanna. Björgun gæludýra var reyndar ekki kennd sérstaklega í Lögregluskólanum, en þá kemur hyggjuvitið til skjalanna þegar út í alvöruna er komið. Sjálfsagt má skamma lögreglumenn fyrir að hafa á stundum ekki beitt meiri skynsemi í slíkum aðstæðum, en lögreglumenn eru bara þannig gerðir að þeir vilja bjarga bæði mönnum og dýrum. Fyrir allnokkru slasaðist lögreglumaður þegar hann einmitt reyndi að bjarga ketti niður úr háu tré, en hjálparbeiðnir af því taginu berast okkur annað slagið og ein slík kom á borð lögreglu í sumar. Lögreglumenn voru fljótir á staðinn, í ónefndum garði á höfuðborgarsvæðinu, og hugðust bjarga þar ketti niður úr tré. Á vettvangi blasti hins vegar við afar óvenjuleg sjón, því ekki einasta var kötturinn í sjálfheldu uppi í trénu, heldur var eigandi hans þar líka. Um var að ræða unga konu sem hugðist bjarga kettinum sínum með öllum tiltækum ráðum, en ekki fór betur en svo að hún sat þar jafnföst og blessaður kötturinn og gat sig hvergi hreyft. Nú voru góð ráð dýr, en eftir að hafa skoðað málið af mikilli yfirvegun afréðu lögreglumennirnir að gera það skynsamlega í stöðunni og kalla til slökkviliðið og kom það á staðinn með stiga undir höndum. Skemmst er frá því að segja að í framhaldinu tókst björgun bæði konunnar og kattarins giftusamlega, en þessum degi gleymir konan vafalaust seint. Hún hefur þó örugglega lært sína lexíu, en kötturinn líklega ekki.