26 Október 2006 12:00

Kona á fertugsaldri var stöðvuð fyrir hraðakstur í Arnarbakka í Breiðholti í gærmorgun. Bíll hennar mældist á rúmlega tvöföldum leyfilegum hámarkshraða og fyrir vikið má konan búast við sviptingu ökuleyfis auk sektar. Mikið hefur borið á hraðakstri í Arnarbakka og lögreglan í Reykjavík mun áfram fylgjast grannt með umferð um götuna. Sama má segja um  aðrar götur í borginni en í gær voru á annan tug ökumanna teknir fyrir hraðakstur. Enginn þeirra ók þó jafn glannalega og áðurnefnd kona. Flestir ökumannanna sem voru stöðvaðir fyrir hraðakstur í gær voru karlmenn yngri en 30 ára.

Allmargir ökumenn voru líka teknir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og þá voru tíu stöðvaðir fyrir að spenna ekki beltin. Í báðum tilfellum voru karlmenn í meirihluta.  Loks voru þó nokkrir ökumenn teknir fyrir að tala í síma án þess að notast við handfrjálsan búnað. Þar var jafnt á komið með kynjunum en karlahópurinn samanstóð einkum af mönnum sem eru yngri en 30 ára.

Á síðasta sólarhring var tilkynnt um átján umferðaróhöpp í borginni en það er heldur meira en undanfarna daga. Mestu skiptir þó að engin slys urðu á fólki. Í tveimur tilfellum var um afstungur að ræða.