14 Nóvember 2006 12:00

Tíu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík í gær en það þykir í minna lagi. Ekki er vitað um nein slys á fólki í þessum óhöppum og því má með sanni segja að umferðin hafi gengið vel fyrir sig. Þá bar sama og ekkert á hraðakstri og svo virðist  sem ökumenn hafi almennt tekið tillit til aðstæðna.

Örfáir spenntu ekki beltin eða töluðu í síma án þess að nota handfrjálsan búnað og einn ökumaður var stöðvaður fyrir að aka gegn rauðu ljósi. Þá var tæplega fertugur karlmaður tekinn í umferðinni í austurbænum í gærmorgun en sá reyndist þegar hafa verið sviptur ökuleyfi.  Í gær klippti lögreglan skrásetningarnúmer af fjórum ökutækjum sem höfðu ekki verið færð til skoðunar.