27 Febrúar 2007 12:00
Þrettán umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Það er með allra minnsta móti enda gekk umferðin alveg bærilega fyrir sig með örfáum undantekningum. Bíll hafnaði á ljósastaur í Lönguhlíð í gærmorgun og var ökumaðurinn, karlmaður á fimmtugsaldri, fluttur á slysadeild. Í hádeginu var ekið á tæplega þrítuga konu á Sundlaugavegi. Hún kenndi sér ekki meins fyrr en nokkru eftir óhappið og fór þá sjálf á slysadeild.
Fjörutíu og einn ökumaður var tekinn fyrir hraðakstur á síðasta sólarhring en akstur þeirra var þó ekkert í líkingu við það sem sást um helgina. Grófustu brotin voru framin á Sæbraut en þar voru fjórir ökumenn teknir á yfir 100 km hraða. Einn þeirra á yfir höfði sér ökuleyfissviptingu í einn mánuð og 75 þúsund króna sekt. Hinir þrír mega búast við 60 þúsund króna sekt hver. Tveir ökumenn, karlmaður og kona á miðjum aldri, voru teknir fyrir ölvunarakstur í gær.