14 Janúar 2015 18:09

Á síðasta ári létust fjórir í umferðarslysum og hafa banaslys hér á landi ekki verið færri frá því að kerfisbundin skráning hófst fyrir nærri hálfri öld, eða árið 1966. Það er mjög ánægjuleg þróun, sem vonandi heldur áfram.

Sé aðeins litið til höfuðborgarsvæðisins má nefna að þar varð ekkert banaslys í umferðinni árið 2014.  Það eru afar ánægjuleg tíðindi og þarf að leita marga áratugi aftur í tímann eftir viðlíka fréttum úr umferðinni.

Undanfarin ár hefur að meðaltali orðið eitt umferðarslys alla daga ársins í umdæmi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en embættið hefur lagt mikla áherslu á sýnilega löggæslu þegar umferðarmál eru annars vegar. Það felst m.a. í því að fylgjast sérstaklega með umferð á fjölförnum gatnamótum og stofnbrautum á álagstímum. Þetta eru jafnframt svokallaðir svartblettir þar sem óhöpp og slys hafa verið tíð. Samhliða hefur verið fylgst með umferðarhraða í og við íbúðagötur á höfuðborgarsvæðinu með kerfisbundnum hætti.

Sýnileg löggæsla og eftirlit í umferðinni hefur ótvírætt skilað góðum árangri, en með samstilltu átaki allra er hægt að gera betur og fækka umferðarslysum enn frekar.