16 Maí 2008 12:00

Tilkynningar til lögreglu geta stundum verið byggðar á eðlilegum misskilningi. Dæmi um það eru tvö útköll sem laganna verðir sinntu í gærmorgun og nótt. Í því fyrra héldu lögreglumenn að húsi í Grafarvogi en tilkynning hafði borist um grunsamlegar mannaferðir. Það fylgdi með að maður hefði sést skríða inn um glugga á áðurnefndu húsi. Þegar komið var á staðinn og haft tal af manninum reyndist háttalag hans eiga sér eðlilegar skýringar. Hér var um vinnustað hans að ræða en af ókunnum ástæðum komst maðurinn ekki inn um dyrnar og greip því til annarra ráða. Í seinna tilvikinu barst tilkynning um grunsamlegar mannaferðir á bifreiðastæði í Breiðholti en þar sást maður sem grunur lék á að væri innbrotsþjófur. Hann var að skoða bíla hátt og lágt og áleit tilkynnandi að maðurinn hefði eitthvað illt í huga. Lögreglan var fljót á vettvang og spurði manninn hvaða erindi hann ætti á bifreiðastæðinu. Ekki stóð á svörum en maðurinn hafði orðið fyrir því óláni að missa nokkra ketti úr vörslu sinni og var nú að reyna að endurheimta þá. Hann var með fulla vasa af kattarmat en maðurinn hafði skriðið árangurslaust meðfram nokkrum bílum í örvæntingarfullri tilraun til að lokka til sín kettina. Sú viðleitni hans hafði litlu skilað enda eru kettir þekktir fyrir flest annað en að láta vel að stjórn.

Þrátt fyrir þessi dæmi skal það tekið fram að betra er að hringja einu sinni of oft í lögreglu en einu sinni of sjaldan.