5 Maí 2017 13:10
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um ókunnugan karlmann í heimahúsi í Hafnarfirði í nótt, en maðurinn fór í herbergi stúlku á heimilinu. Hún náði að komast undan og gera öðrum heimilismönnum viðvart, en þegar forráðamenn stúlkunnar, sem er á grunnskólaldri, leituðu að manninum í húsinu var hann á bak og burt. Gerð var mikil leit að manninum, auk þess sem tæknideild lögreglu var kölluð á vettvang. Lögreglan hafði rökstuddan grun um hver þarna var á ferðinni og var karlmaður á þrítugsaldri handtekinn vegna málsins um hádegisbil í dag.
Í gærkvöld og nótt bárust enn fremur nokkrar tilkynningar um grunsamlegar mannaferðir í tveimur hverfum í Hafnarfirði og ber lýsingum tilkynnenda nokkuð saman um þann sem var á ferli. Grunur lögreglu er því að einn og sami maðurinn hafi komið við sögu í öllum þessum tilvikum, þ.m.t. þegar farið var inn í herbergi stúlkunnar eins og áður er getið.