9 Mars 2011 12:00

Unnið er að grýlukertahreinsun á Laugavegi í Reykjavík en af þeim sökum var lokað fyrir umferð niður Laugaveg (frá Barónsstíg). Slökkviliðið er með tvo bíla á staðnum til að sinna þessari hreinsun en áætlað er að henni ljúki ekki fyrr en síðdegis.

Sem fyrr beinir lögreglan þeim tilmælum til fólks á höfuðborgarsvæðinu að huga að grýlukertum og snjóhengjum er lafa fram af húsþökum en af þeim getur stafað mikil hætta. Tilmælunum er ekki síst beint til verslunar- og/eða húseigenda á stöðum þar sem mikið er um gangandi vegfarendur. Þetta á m.a. við um Laugaveg, þar sem áðurnefnd grýlukertahreinsun stendur yfir, sem og nærliggjandi götur í miðborginni. Mælst er til þess að fólk kanni með hús sín og grípi til viðeigandi ráðstafana áður en slys hlýst af.

Myndirnar hér að neðan voru teknar á Laugavegi fyrr í dag og sýna vel um hvað er að ræða.