19 Janúar 2023 17:10

Gefin hefur verið út gul viðvörun vegna veðurs á höfuðborgarsvæðinu og gildir hún frá kl. 5 í nótt (aðfaranótt föstudags) og til kl. 10 í fyrramálið, en spáð er suðaustan hvassviðri eða stormi. Gul viðvörun verður áfram í gildi frá kl. 10 á morgun, föstudag, og til kl. 6 aðfaranótt laugardags, en þá er gert ráð fyrir asahláku. Búast má við talsverðu afrennsli vegna úrkomu og snjóbráðnunar og vexti í ám og lækjum. Hyggilegt er að huga að niðurföllum til að vatn komist leiðar sinnar í fráveitukerfi og forðast vatnstjón. Flughálka er líkleg til að myndast á blautum klaka.

Veðurhorfur á höfuðborgarsvæðinu næsta sólarhringinn: Austan 8-13 m/s í kvöld, þykknar upp og dregur úr frosti. Gengur í suðaustan 15-23 seint í nótt með slyddu og síðar rigningu og hlýnar. Snýst í sunnan 10-15 fyrripartinn á morgun, föstudag, með rigningu, talsverð úrkoma um tíma eftir hádegi og hiti þá 6 til 9 stig.

Athugasemd veðurfræðings: Snýst í sunnan strekking eða allhvassan vind á morgun með talsverðri rigningu sunnan- og vestan til og hlýindum á öllu landinu. Um er að ræða mikil umskipti í veðri frá kuldatíðinni sem verið hefur og gefnar hafa verið út gular viðvaranir vegna asahláku af því tilefni.