2 Mars 2007 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar enn við gylliboðum á netinu en ekkert lát er á þeim. Gylliboðin eru ekki á rökum reist en að baki þeim standa óprúttnir aðilar sem einskis svífast. Jafnvel er um að ræða hryðjuverkamenn sem nota þessa leið til að fjármagna starfsemi sína. Fólki er ráðlagt að leita til lögreglu þegar því berast þessi gylliboð. Hér fylgja dæmi um einstaklinga sem hafa látið glepjast.

Ungur karlmaður leitaði að bíl til kaupa á netinu.  Hann fann bíl á mjög góðu verði og setti sig í samband við seljandann sem bauð honum að flytja bíllinn til Íslands endurgjaldslaust. Þar mátti kaupandinn reynsluaka bílnum í þrjá daga áður en hann gerði upp hug sinn. Fyrst átti kaupandinn þó að greiða helming af söluverði bílsins til þriðja aðila sem og hann gerði. Enn bólar ekkert á bílnum til landsins en kaupandinn hefur verið hvattur til að greiða bílinn að fullu svo hægt sé að ganga frá málinu. Aldrei stóð til að efna þennan samning. Bíllinn sem um ræðir er nánast nýr og auglýst söluverð hans er langt undir markaðsvirði.

Karlmanni á miðjum aldri var boðið að gerast skráður eini lögerfingi efnaðs læknis í Senegal. Tilboðið barst bréfleiðis en ritari þess sagðist vera fulltrúi senegölsku ríkisstjórnarinnar. Manninum var lofað 35 milljónum íslenskra króna. Fyrst þurfti að ganga frá formsatriðum sem reyndust vera tryggingargreiðslur. Hinni meinti fulltrúi senegölsku ríkisstjórnarinnar hefur nú fengið sendar umtalsverðar fjárhæðir frá Íslandi en arfurinn hefur hins vegar ekki skilað sér enn.

Karlmaður bauð í hlut á uppboðsvefnum eBay. Hann fékk ekki hlutinn en um leið og uppboðinu var lokið fékk hann tölvupóst frá aðila sem sagðist geta selt honum samskonar vöru. Eftir nokkrar tölvupóstssendingar óskaði söluaðilinn eftir því að gengið yrði frá greiðslu utan svokallaðs “Pay-Pal” kerfis sem eBay ábyrgist. Greiða átti með millifærslu í gegnum Western Union en með þessum skilmálum fengi kaupandinn ríflegan afslátt. Maðurinn féllst á þetta en varan hefur enn ekki borist og seljandinn svarar ekki tölvupósti.