8 Maí 2003 12:00

Þau gleðilegu tíðindi urðu í vikunni að Pokasjóður veitti forvarnarfélaginu Hættu áður en þú byrjar 3 milljón króna styrk til eflingar á því starfi sem fram fer á vegum félagsins. Hættu áður en þú byrjar er samstarfsverkefni Lögreglunnar í Reykjavík, Félagsþjónustunnar í Reykjavík og Marita, fræðslu- og hjálparstarfs sem staðið hefur fyrir fíkniefnafræðslu í grunnskólum frá árinu 1998. Fræðslunni hefur aðallega verið beint að nemendum í 9. bekk og foreldrum þeirra en í vetur hefur einnig verið boðið upp á eftirfylgd fyrir nemendur í 10. bekk og foreldra. Jafnframt hefur óskum um vímuefnafræðslu fyrir yngri nemendur fjölgað og höfum við eftir mætti reynt að verða við þeim.

Frá árinu 1998 hafa tæplega 19.000 nemendur átt þess kost að sækja Hættu áður en þú byrjar fræðslufundi, haldnir hafa verið 413 fundir fyrir nemendur og 220 fyrir foreldra. Þá eru ekki taldir með eftirfylgdarfundir, fundir fyrir 8. bekkinga og fundir í framhaldsskólum.

Áfengis- og vímuvarnarráð hefur styrkt verkefnið á undanförnum árum og höfum við fengið staðfest að framhald verði á því á næsta skólaári. Styrkurinn frá Pokasjóði gerir það hins vegar að verkum að hægt verður framkvæma ýmis verkefni sem hingað til hefur ekki verið hægt að fjármagna.

Pokasjóður veitti 54 styrki þetta árið að upphæð 60 milljónum króna. Sjóðurinn veitir styrki til umhverfis-, menningar-, íþrótta- og mannúðarmála. Vert er að geta þess að stjórn Pokasjóðs átti frumkvæði að því að Hættu áður en þú byrjar leitaði eftir styrk og er það ánægjuleg vísbending um hversu gott orðspor fer af verkefninu.