21 Nóvember 2006 12:00

Lögreglan í Reykjavík hafði afskipti af tveimur piltum, 16 og 17 ára, sem stunduðu hættulegan leik í einu úthverfa borgarinnar í gærkvöld. Félagarnir höfðu bundið sleða við bíl eldri piltsins sem ók síðan með þann yngri í eftirdragi á sleðanum. Þeim var gert að hætta þessari iðju tafarlaust og jafnframt bent á hættuna sem þessu fylgdi.

Þá bárust lögreglunni ábendingar um börn sem voru að leik í snjó nærri eða við umferðargötur. Af því tilefni biður lögreglan foreldra um að brýna fyrir börnum sínum að leika sér á öruggum svæðum. Það á t.d. alls ekki að renna sér á snjóþotu þar sem bílar geta komið aðvífandi. Foreldrar og forráðamenn barna verða að vera vakandi fyrir þessari hættu.

Og meira af hættulegum leikjum en þó af öðrum toga. Lögreglan stöðvaði för tvegga pilta um miðnætti eftir að kvörtun barst um aðila sem beindu skammbyssu að vegfarendum. Í ljós kom að piltarnir voru með leikfangabyssu í fórum sínum en með henni höfðu þeir skotið öðrum vegfarendum skelk í bringu. Lögreglan lagði hald á leikfangabyssuna.