22 Janúar 2007 12:00

Það er alkunna að börn og unglingar sækjast í að leika sér á ísnum þegar svo viðrar. Slíkt er þó ávallt varasamt og því beinir lögreglan því til foreldra að ræða um hættuna við börnin sín. Á höfuðborgarsvæðinu eru ýmsir staðir sem freista í þessum efnum en lögreglumenn hafa sannreynt það í dag að ísinn er þunnur og því mjög varhugaverður.

Lögreglumenn könnuðu m.a. ástandið á sjónum sunnan við Kársnesið í Kópavogi og eins á Elliðavatni. Á báðum stöðum reyndist ísinn vera þunnur og því er full ástæða til að vara fólk við en ástandið mun vera svipað annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.

Vitað er að margir í hópi hinna fullorðnu ganga gjarnan yfir vötnin í nágrenni byggðarinnar og þessum varnaðarorðum er líka beint til þeirra. Skemmst er að minnast óhapps í fyrra þegar ísinn gaf sig undan fótum þriggja kvenna sem voru á gangi á Rauðavatni.