4 Maí 2012 12:00

Lögreglan hafði afskipti af vörubíl með eftirvagn í austurborginni í gærmorgun en grunsemdir vöknuðu um að verið væri að flytja farm sem væri í engu samræmi við heimild. Bílstjóranum var gert að aka á næstu vigt en þar kom í ljós að hlassið var langtum meira en leyft var og munaði þar allmörgum tonnum. Reyndust tonnin hátt í þriðjung umfram leyfða heildarþyngd. Við svo búið var haldið beint á losunarstað og þaðan á skoðunarstöð og að sjálfsögðu í lögreglufylgd. Á skoðunarstöðinni voru ennfremur gerðar ýmsar athugasemdir við bæði vörubílinn og eftirvagninn, m.a. við bremsurnar. Niðurstaðan varð að lokum sú að eftirvagninn þarf að færa í endurskoðun en akstursbann var sett á vörubílinn.