9 Júní 2020 09:32

Föstudaginn 5. júní s.l. fóru lögreglumenn á Suðurlandi í húsleit í útihúsum á bæ í Árnessýslu vegna gruns um að þar færi fram ræktun á kannabisplöntum.   Leitin var framkvæmd að undangengnum úrskurði dómara og við hana fundust um 280 kannabisplöntur í því sem áður var haughúskjallari á viðkomandi sveitabæ.   Tvennt var handtekið á vettvangi og er málið til rannsóknar áfram.

Miðvikudaginn 20. maí handtóku lögreglumenn á eftirlitsferð tvo menn við sumarbústað í uppsveitum Árnessýslu en ferðir þeirra þóttu grunsamlegar og óvíst um tengingar þeirra við bústaðinn.  Við leit í bíl þeirra fundust um 28 kg af kannabisplöntum (skúnkum) sem þeir eru taldir hafa ætlað að þurrka í bústað sem þeir tóku á leigu í gegn vefsölu.   Mennirnir voru færðir á lögreglustöð og vistaðir þar og í framhaldinu færðir fyrir Héraðsdóm Suðurlands og þar úrskurðaðir í viku langt gæsluvarðhald að kröfu lögreglustjóra í þágu rannsóknar málsins.   Rannsókn málsins miðar vel og þótti ekki vera efni til að framlengja gæsluvarðhald þeirra þegar það féll úr gildi en öðrum aðilanum var hinsvegar gert að sæta farbanni fram í ágúst.   Sá er erlendur og dvelur hér á landi tímabundið

Þann 30. Maí s.l. var karlmaður á þrítugsaldri handtekinn á Selfossi vegna gruns um dreifingu fíkniefna.   Við leit í bíl hans og síðar á heimili hans fannst umtalsvert magn af fíkniefnum auk fjármuna sem haldlagðir voru vegna gruns um að þar væri um að ræða hagnað af dreifingu.   Maðurinn frjáls ferða sinna að yfirheyrslu lokinni en málið áfram til rannsóknar.

Þann hálfa mánuð sem nú er undir hér voru 77 einstaklingar kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu. Einn þeirra, stúlka á nítjánda ári er jafnframt grunuð um að hafa verið ölvuð við akstur en akstur hennar var stöðvaður á Hellisheiði þar sem hraði bifreiðar hennar mældist 121 km/klst   6 aðrir ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum áfengis og 5 ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna á sama tímabili. Þrír eru kærðir fyrir að nota farsíma án þess handfrjáls búnaðar við akstur bifreiða sinna.

Félagar okkar í slökkviliðunum hafa haft í ýmsu að snúast.   Þannig voru brunavarnir Árnessýslu kallaðar til þegar eldur kom upp í rútu á Einholtsvegi þann 29. maí. Rútan er ónýt eftir brunann en hún var mannlaus þegar eldurinn kom upp.    Deginum áður höfðu Brunavarnir Árnessýslu slökkt sinueld sem kom upp þar sem eldur frá ruslabrennslu læsti sig í sinu og breiddist hratt út.   Ekki þarf að taka fram að óheimilt er að brenna rusli í dag og til eyðingar á rusli tiltæk önnur úrræði.  Málið er til rannsóknar m.t.t.  refsiverðrar háttsemi þess sem ruslinu brenndi.    Þann 2. júní brann jeppi á Laugavatni. Ökumaður og farþegi náðu að slökkva eldinn, sem var í vélarrými bílsins, með handslökkvitækjum en ljóst er að bíllinn er mikið skemmdur.   Liðsmenn Brunavarna Árnessýslu komu svo og tryggðu að ekki væri frekari glóð að finna. Þann 3. júní kom upp eldur í mannlausri beltagröfu í námu í Hrunamannahreppi.   Unnið hafði verð á vélinni fyrr um daginn og ekki að sjá annað en að hún væri í lagi þá.   Brunavarnir Árnessýslu slökktu eldinn en tjón á vélinni er mikið.   Sama dag brann sumarbústaður í Miðfellslandi.   Tjón varð á gróðri í kring um hann en með snöru viðbragði Brunavarna tókst að koma í veg fyrir að eldurinn breiddist út. Bústaðurinn brann til grunna.   Húsráðandi kvaðst hafa gleymt sér við smíðar útivið og því að hann hafði þá þegar hafið eldamennsku inni.   Þann 6. júní barst eldur frá grilleldamennsku  í sinu á Skeiðum.   Nokkurt svæði brann en Brunavarnir slökktu eldinn.   Matreiðslumaðurinn hafið samviskusamlega reynt að slökkva eldinn og gerði vel í að hringja eftir aðstoð þegar ljóst var að hann myndi ekki ráða við það verkefni án aðstoðarinnar.   Þennan sama dag kom upp eldur í gróðri í Húsadal í Þórsmörk. Vegfarendum tókst að slökkva hann en liðsmenn Brunavarna Rangárþings sprautaði síðan vatni yfir til að tryggja að hvergi leyndist glóð.   Allt að 1 hektari lands brann þarna, aðallega lyng og mosi.

Við skulum ekki gleyma Covid.  Enn eru í gildi takmarkanir á opnun og samkomum.   Árangurinn sem náðst hefur er almenningi sem tekið hefur samviskusamlega þátt í aðgerðunum að þakk en herkostnaðurinn er töluverður.   Við skulum reyna af fremsta megni að fylgja þeim reglum sem um þetta gilda, það væri sárt að þurfa að hverfa aftur til fyrri vandamála.   Greinilegt er að margir eru farnir að slaka verulega á í umgengni við aðra en við skulum minnast þess að þeir sem stýrt hafa aðgerðum fram að þessu hafa skilað frábærri vinnu og full ástæða til að taka mark á fólki sem nær árangri sem telst vera með því besta á heimsvísu.