10 Febrúar 2010 12:00
Honum lá mikið á, nítján ára pilti, sem lögreglan stöðvaði við akstur í Reykjavík síðdegis í gær en sá ók greitt og sveigði ótæpilega á milli annarra ökutækja. Ungi maðurinn sagðist vera að fara að keppa í handbolta og því orðið að gefa í en í bílnum voru líka nokkrir félagar hans á svipuðum aldri sem vafalaust áttu líka að taka þátt í leiknum. Öllum var gerð grein fyrir því að svona akstursmáti væri stórhættulegur og virtust þeir meðtaka skilaboðin. Til öryggis var þeim fylgt á leikinn og farið með ökumanninum alla leið inn í búningsklefa. Þar var rætt við þjálfara piltsins og honum bent á að leikmenn hans þyrftu að haga sér vel, jafnt innan vallar sem utan. Þjálfarinn tók þessum ábendingum vel og ætlaði að ræða þetta frekar við strákana. Ekki er vitað hvernig leikurinn fór!