15 Janúar 2008 12:00

Um hádegisbil í gær, mánudag, fóru rannsóknarlögreglumenn í verslun í austurborginni með það fyrir augum að handtaka starfsmann vegna gruns um að hann hefði verið viðriðinn nýleg rán í annarri verslun í borginni. Lögreglumennirnir höfðu ekki verið lengi inni í versluninni þegar grímuklæddur maður kom skyndilega inn, en andlit hans var algjörlega hulið. Lögreglumenn brugðust þegar við, höfðu afskipti af manninum og reyndist hann þá vera vopnaður eldhúshnífi. Lögreglumennirnir handtóku manninn, enda grunaður um tilraun til ráns. Þarna reyndist vera um að ræða vin starfsmanns verslunarinnar og var starfsmaðurinn því einnig handtekinn, en hann hafði einungis unnið í versluninni í fjóra daga.

Við yfirheyrslur kom í ljós að mennirnirnir, sem eru báðir á tvítugsaldri, höfðu undirbúið og skipulagt sviðsetningu á ráni í versluninni í þeim tilgangi að ná peningum, símainneignum og tóbaki. Aðkomumaðurinn hafði verið klæddur í tvennar peysur og tvennar buxur. Þótt kalt hafi verið úti var það ekki skýringin á klæðnaðinum heldur ætlaði maðurinn að komast fljótt úr fötunum og henda af sér á leið af ránsvettvangi.

Við yfirheyrslu játaði aðkomumaðurinn að hafa ætlað að ræna verslunina og að starfsmaðurinn hefði undirbúið verknaðinn og látið sig vita þegar láta átti til skarar skríða – skömmu áður en lögreglumennirnir komu á vettvang. Við húsleit heima hjá starfsmanni verslunarinnar fannst þýfi, sem tengist innbrotum, m.a. um nóttina í Borgarfirði. Um var að ræða fartölvur og skjávarpa.