14 Febrúar 2007 12:00
Þrír piltar, 15-17 ára, voru handteknir fyrr í dag en þeir eru grunaðir um fjölda skemmdarverka í og við Hafnarfjörð síðastliðna nótt. Skemmdarvargar fóru þá um svæði Hestamannafélagsins Sörla, iðnaðarhverfi við Íshellu og víðar. Brotnar voru rúður í a.m.k. þrjátíu bílum og margir þeirra rispaðir og beyglaðir að auki. Einnig var brotin rúða í heimahúsi og vinnuskúr en ekki er ljóst hvort búið er að tilkynna öll skemmdarverk sem voru unnin í Hafnarfirði í nótt. Skemmdarvargarnir eru líka grunaðir um að hafa stolið bíl sem sást á vettvangi. Fyrrnefndir piltar hafa áður komið við sögu hjá lögreglu.