18 Ágúst 2006 12:00

Lögreglan í Reykjavík mun taka hart á unglingadrykkju á Menningarnótt og hella niður áfengi ef svo ber undir. Athygli er vakin á því að reglur um útivistartíma eru þær sömu á Menningarnótt og aðra daga. Börn sem eru yngri en 16 ára verða færð í Foreldrahús í Vonarstræti 4B ef þau eru úti eftir lögboðinn útivistartíma. Sama gildir um ungmenni yngri en 18 ára sem er undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Þau verða líka færð í Vonarstræti 4B. Lögreglan treystir á liðveislu foreldra í þessu máli og best væri að enginn þyrfti á þessari þjónustu að halda. Til að það gangi eftir er mikilvægt að koma í veg fyrir að börn og unglingar undir lögaldri séu eftirlitslaus í miðbænum eftir að dagskrá lýkur með flugeldasýningu klukkan 22:30.

Lögreglan óskar fólki góðrar skemmtunar á Menningarnótt en biður það jafnframt að ganga hægt um gleðinnar dyr. Ef allir leggjast á eitt verður Menningarnótt bæði ánægjuleg og líka skemmtileg í minningunni.